Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt deiliskipulag íþróttasvæðis og frumhönnun á sundlaugarsvæði
Sundlaugaraðstaða Grindvíkinga mun taka miklum stakkaskiptum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 24. febrúar 2023 kl. 11:45

Nýtt deiliskipulag íþróttasvæðis og frumhönnun á sundlaugarsvæði

Verður ein besta sundlaug landsins. Framkvæmdir hefjast á næsta ári. Heildarkostnaður 1.500 milljónir króna.

„Deiliskipulag er í vinnslu fyrir íþróttasvæðið og fjárhagsáætlun bæjarins gerir ráð fyrir að framkvæmdir við sundlaug hefjist á næsta ári,“ segir Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, en Grindavíkurbær efndi til íbúarfundar í Gjánni þriðjudaginn 14. febrúar þar sem efnið var kynning á deiliskipulagi íþróttasvæðis og á frumhönnun á sundlaugarsvæði.

Deiliskipulagið er hugsað til 20–30 ára og er það undir ríkjandi bæjarstjórn komið, í hvaða röð ráðist verði í viðkomandi framkvæmdir. Búið er að ákveða að fyrst verði ráðist í endurnýjun á sundlaugarsvæðinu. Óhætt er að segja að um glæsilega hönnun sé að ræða sem mun umbylta sundaðstöðu Grindvíkinga, þar sem ein stærsta búbótin er innisundlaug sem verður mest hugsuð fyrir kennslusund. Í sömu byggingu er gert ráð fyrir veglegu slökunarherbergi með nokkrum gufuböðum, köldum og heitum potti svo dæmi sé tekið. Útisundlaugin mun færast nær búningsherbergjum og heitir og kaldur pottur verða sömuleiðis nær. Aðgengi fatlaðra verður stórbætt og nýjar rennibrautir munu eflaust vekja áhuga yngri kynslóðarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavíkurbær bauð bæjarbúum að skila inn hugmyndum varðandi hið nýja sundlaugarsvæði. Að sögn Sigríðar Etnu Marinósdóttur, formanns frístunda- og menningarnefndar Grindavíkurbæjar, bárust yfir 500 hugmyndir og kenndi víst ýmissa grasa í þeim. „Ég get fullvissað íbúa bæjarins um að það hafi verið vandað til verka í þessari vinnu. Meirihlutinn hefur verið á tánum alveg frá kosningum í maí á síðasta ári og hefur farið í þessa vinnu af fullum þunga. Vinnan síðustu mánuði hefur verið skemmtileg. Samstarfið hjá meirihlutanum í þessu máli hefur verið gott og greinilegt að allir eru að róa í sömu átt. Okkar hlutverk hefur verið að taka fyrir öll mál sem tengjast aðstöðunni eins oft og hægt var í nefndum bæjarins. Það hafa mjög margir komið að þessari vinnu, ekki aðeins nefndir bæjarins heldur einnig starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar, íbúar bæjarins og ungmennaráð. Framkvæmdin mun ekki aðeins taka tíma heldur mun hún einnig verða kostnaðarsöm en bæjarstjórn Grindavíkur hefur gert áætlun um að setja einn og hálfan milljarð í verkið næstu þrjú árin. Það er alveg ljóst að íbúar Grindavíkur vilja fá almennilega sundlaugaaðstöðu í bæjarfélagið. Ég hef fulla trú á því að hér verði besta sundlaug landsins, það eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Aðgengið verður líka til fyrirmyndar. Þetta er mikið gleðiefni og bæjarbúar eru spenntir fyrir verkefninu,“ sagði Sigríður Etna.

Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, segir að næstu skref gagnvart deiliskipulaginu verði að kynna vinnslutillögu þar sem öllum verðum boðið að koma með athugasemdir, það kemur fram á heimasíðu Grindavíkurbæjar hvernig það er hægt og er skilafrestur til 26. febrúar. „Í kjölfarið verður haldið áfram með deiliskipulagsvinnuna og deiliskipulagið sett í formlegt auglýsingarferli. Vonir standa til að deiliskipulagið taki gildi á seinni hluta þessa árs. Vinna við forhönnun á sundlaugarsvæðinu er hafin en eftir að hún verður samþykkt má gera ráð fyrir að vinna við fullnaðarhönnun taki sex til átta mánuði. Svo er verkið boðið út. Fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar gerir ráð fyrir að framkvæmdir við sundlaugarsvæðið hefjist á næsta ári en gert er ráð fyrir 500 milljónum króna við framkvæmdirnar á ári á næstu þremur árum. Hvenær ráðist verður í aðrar framkvæmdir á svæðinu, eins og gervigras á fótboltavöllinn svo dæmi sé tekið, er síðan undir pólitíkinni komið,“ sagði Atli.

Það ætti ekki að væsa um sundlaugargesti þegar framkvæmdum verður lokið. 

Rennibraut, pottar og ný sundlaug.

Séð inn í heilsulindina.